Alþjóða handknattleikssambandið ákvað á fundi sínum í síðustu viku að aflýsa öllum mótum yngri landsliða á árinu. Þetta var tilkynnt á heimasíðu sambandsins í gærkvöldi.
U-19 og U-21 árs landslið karla áttu bæði þátttökurétt á HM í sumar en ekki hefur verið tekin frekari ákvörðun um hvaða áhrif þetta hefur á æfingar og keppni liðanna næsta sumar.
Nánar má lesa um þetta á heimasíðu IHF.
U-17 og U-19 ára landslið kvenna eru skráð til leiks á Evrópumót í sumar auk þess sem U-17 ára landslið karla er skráð á Opna Evrópumótið en Handknattleikssamband Evrópu (EHF) hefur yfirumsjón með þeim mótum. Ekki hefur borist nein tilkynning frá EHF um að þeim mótum verði frestað og mun því undirbúningur liðanna halda áfram þangað til annað kemur í ljós.