Yngri landslið | Æfingavika yngri landsliða kvenna
Þessa dagana eru öll okkar landslið kvennamegin, við æfingar. Metnaðurinn er mikill í starfinu, en um 100 stelpur voru valdar í verkefnið og eru nú við æfingar hjá sínum landsliðum. Það er óhætt að segja að uppgangurinn og áhuginn sé mikill og efniviðurinn svo sannarlega til staðar. Stelpurnar leggja sig alla fram á æfingunum og viljinn og metnaðurinn hjá þeim til fyrirmyndar.
Síðasta miðvikudag komu allir leikmennirnir saman og hlustuðu á flotta fyrirlestra frá fjórum af landsliðsþjálfurunum, borðuðu svo saman að þeim loknum og héldu svo á landsleikinn á milli Íslands og Svíþjóðar síðar um kvöldið.
Fyrirlestrarnir sem í boði voru:
Markmiðssetning, hvernig setur þú þér markmið og framfylgir þeim?
Umsjón: Árni Stefán Guðjónsson & Díana Guðjónsdóttir
A-landsliðskona / atvinnumennska, hvað þarf til?
Umsjón: Hildur Þorgeirsdóttir & Rakel Dögg Bragadóttir
Æfingar liðanna byrjuðu á fimmtudag og standa að auki yfir helgina. Framundan eru eftirfarandi verkefni:
U20 ára landsliðið tekur þátt á HM í Makedóníu í júní
U18 ára landslið tekur þátt á HM í Kína í ágúst
U16 ára landslið tekur þátt á opna Norðurlandamótinu í Svíþjóð í júlí
Að auki æfir U15 ára landsliðið, sem eingöngu tekur þátt í æfingum að þessu sinni.
Sem fyrr er svo von á kvennaliðum Færeyja í heimsókn á vormánuðum með sín lið í byrjun júní þar sem leiknir verða vináttuleikir hér á landi, sem undirbúningur fyrir verkefnin sem framundan eru.