21 árs landslið karla vann í dag öruggan sigur á Síle, 26-19, í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu á Spáni.



Eftir mjög erfiða byrjun þar sem Ísland lenti þremur mörkum undir náðu strákarnir vopnum sínum á ný og tókst að jafna skömmu fyrir hálfleik, 10-10. 



Seinni hálfleikur var nánast einstefna þar sem liðið sýndi sínar sterkustu hliðar og náði mest átta marka forskoti en lokatölur urðu 26-19. 



Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik í marki Íslands og varði 19 skot (53% markvarsla) auk þess að skora tvö mörk og var að leik loknum kjörinn maður leiksins. 



Jakob Martin Ásgeirsson var markahæstur Íslendinga með fimm mörk en markaskorun dreifðist nokkuð jafnt á liðið í leiknum. 

 

Næsti leikur Íslands er á morgun gegn Argentínu kl. 14:00 að íslenskum tíma og verður hann sýndur beint á SportTV.