Stelpurnar í U20 kvenna unnu í dag sterkan sigur gegn Síle í fyrsta leik á Friendly cup sem fram fer í Skopje í Norður-Makedóníu. Leikurinn fór rólega af stað og jafnræði var með liðunum framan af, en um miðjan fyrri hálfleikinn settu stelpurnar okkar heldur betur í gír og náðu upp góðu forskoti en hálfleikstölur voru 16-10 Íslandi í vil.

Í síðari hálfleik slökuðu stelpurnar heldur betur ekki á klónni og héldu áfram að bæta við forskotið jafnt og þétt. Lokatölur urðu 32-20 fyrir Ísland.

Íslenska liðið lék á löngum köflum afar góðan handbolta og allir leikmenn fengu tækifæri á að spreyta sig. Liðið er nú í endurheimt en í kvöld hefst undirbúningur fyrir leik morgundagsins gegn afar sterku liði Rúmeníu.

Markaskor íslenska liðsins: Sonja Lind Sigsteinsdóttir 8, Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Elísa Elíasdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir, Embla Steindórsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir, og Sylvía Jónsdóttir 1.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 9 bolta og Anna Karólína Ingadóttir 4.

Íslenska liðið lék afar vel í leik dagsins og spiluðu af miklum krafti. Mynd: Guðríður Guðjónsdóttir, yfirfararstjóri íslenska liðsins