Stelpurnar í U20-kvenna sigruðu í dag gegn Sviss í síðasta leik liðsins á HM í Skopje, 29-26. Ísland endar því mótið í sjöunda sæti sem er besti árangur íslensks kvennalandsliðs frá upphafi!
Leikurinn fór vel af stað fyrir Ísland en stelpurnar mættu afar beittar til leiks og höfðu frumkvæðið nánast frá upphafi. Íslenska liðið náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik en Sviss voru þó harðar í horn að taka og svöruðu jafn harðan til baka. Staðan í hálfleik var 14-12 Íslandi í vil.
Síðari hálfleikurinn þróaðist lengi vel eins og sá fyrri, en þegar tíu mínútur voru eftir áttu Sviss þó afar góðan kafla og náðu eins marks forystu, 20-21. Stelpurnar okkar létu það þó ekki slá sig út af laginu og voru komnar á ný í forystuna þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum, 24-22. Sviss reyndu allt hvað þær gátu, spiluðu 7 gegn 6 sóknarlega og pressuðu stelpurnar okkar hátt í vörn, en allt kom þó fyrir ekki og glæsilegur sigur Íslands staðreynd, 29-26.
Sigurinn í dag var endir á frábæru heimsmeistaramóti hjá stelpunum okkar, sem bættu í dag sinn besta árangur um eitt sæti frá því á HM í Skopje fyrir tveimur árum síðan. Annað heimsmeistaramótið í röð er Ísland á meðal átta bestu liða heims, en spilamennska liðsins hefur hefur vakið verðskuldaða athygli hér úti og þá sérstaklega hetjuleg frammistaða gegn firnasterku liði Ungverja sem leika í dag um gullverðlaun á mótinu.
Liðið hefur vaxið svo um munar með hverju verkefninu undanfarin ár en stelpurnar voru í dag að ljúka þátttöku sinni á þriðja A-mótinu í röð: HM í Skopje sem U18 ára lið, EM í Rúmeníu sem U19 ára lið og HM í Skopje sem U20 ára lið. Framtíðin er svo sannarlega þeirra og það verður gaman að fylgjast með leikmönnum liðsins á næsta tímabili í Olís-deild kvenna. Stelpurnar hafa sýnt magnaða liðsheild, bæði hér á HM í ár og eins líka í fyrri verkefnum. Nokkrar úr liðinu hafa nú þegar fest sig í sessi sem leikmenn A-landsliðs kvenna og án efa munu fleiri gera tilkall til þess sama á næstu árum. Stelpurnar luku í dag formlega sínu síðasta verkefni saman sem yngra landslið og það var vel við hæfi að það hafi klárast með sterkum sigri og sjöunda sætinu á heimsmeistaramótinu í handbolta. Til hamingju stelpur og áfram ÍSLAND!
Markaskor íslenska liðsins: Inga Dís Jóhannsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Elísa Elíasdóttir 4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín og Embla Steindórsdóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir, Lilja Ágústsdóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir, Sonja Lind Sigsteinsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir 1 mark hver.
Í markinu vörðu þær Anna Karólína Ingadóttir og Ethel Gyða Bjarnasen 6 bolta hvor um sig.