Stelpurnar í U20 kvenna gerðu sér lítið fyrir og lentu í 1. sæti á Friendly Cup sem fór fram í Skopje. Úrslitaleikurinn var gegn heimastúlkum í Norður-Makedóníu og hófst klukkan 17.00 að íslenskum tíma. Leikurinn fór vel af stað fyrir stelpurnar okkar sem mættu afar beittar til leiks. Varnarleikurinn var mjög sterkur og Ethel Gyða Bjarnasen var í miklu stuði þar fyrir aftan. Íslenska liðið tók frumkvæðið í leiknum strax frá upphafi og staðan í hálfleik var 16-11 Íslandi í vil.
Leikurinn jafnaðist talsvert út í síðari hálfleik þegar Norður-Makedónía gerði alvöru áhlaup og sýndu mátt sinn og megin. Stelpurnar okkar náðu þó að snúa vörn í sókn og unnu þegar upp var staðið góðan sigur, 32-29 í miklum baráttuleik. Leikur íslenska liðsins var heilt yfir góður í dag á móti kraftmiklu liði Norður-Makedóníu, sem ætla sér stóra hluti hér á heimavelli á sjálfu heimsmeistaramótinu sem hefst í næstu viku. Stelpurnar okkar fögnuðu vel og innilega í leikslok þegar verðlaunabikarinn fór á loft en á morgun hefst síðan undirbúningur fyrir fyrsta leik á heimsmeistaramótinu, sem er gegn sterku liði Angóla næsta miðvikudag.
Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Elísa Elíasdóttir og Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir og Lilja Ágústsdóttir 2 og Embla Steindórsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 1.
Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 13 bolta og Anna Karólína Ingadóttir 1 úr vítakasti.