Stelpurnar í U20-kvenna gerðu sér lítið fyrir í dag og tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum á HM í Skopje, með mögnuðum sigri á Svartfjallalandi 35-27.

Leikurinn fór þó betur af stað fyrir Svartfjallaland sem komust fljótt í 4-1 og 5-2 í upphafi leiks. Þær svartfellsku spiluðu afar sterka 5+1 vörn og beittu ýmsum brögðum sóknarlega sem stelpurnar okkar náðu þó smátt og smátt tökum á. Þrátt fyrir að íslenska liðið næði að jafna metin um tíma, voru Svartfjallaland þó með yfirhöndina lengi vel, en með frábærum lokaspretti náðu stelpurnar okkar að vinna upp muninn og þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 15-14 Íslandi í vil.

Forskotið létu stelpurnar aldrei af hendi og náðu með frábærum varnarleik og vel útfærðum hraðaupphlaupum að bæta jafnt og þétt við muninn. Svartfjallaland reyndu allt hvað þær gátu, en spilamennska íslenska liðsins var einfaldlega frábær og lokatölur urðu sem áður segir 35-27 Íslandi í vil. Fyrirliðinn Lilja Ágústsdóttir fór fyrir sínum stúlkum, en hún skoraði 13 mörk í kvöld og var fyrir vikið valin maður leiksins. Ethel Gyða Bjarnasen sýndi einnig frábæra takta í markinu og varði eina 19 bolta.

Úrslitin þýða að Ísland er komið í 8-liða úrslit á HM U20-ára liða, líkt og fyrir tveimur árum þegar stelpurnar spiluðu sem 18-ára lið á heimsmeistaramótinu sem einnig fór fram hér í Skopje. Sannarlega frábær árangur það! Liðið á erfiðan leik fyrir höndum á morgun gegn Portúgal, þar sem úr verður skorið hvort liðið endar í efsta sæti milliriðilsins. Væntanlegir mótherjar Íslands í 8-liða úrslitunum eru síðan Danmörk og Ungverjaland, tvö af allra sterkustu liðunum í þessum aldursflokki. Leikirnir framundan verða auglýstir betur á miðlum HSÍ þegar nær dregur og þá er vert að benda á frábæra umfjöllun um mótið á www.handbolti.is.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 13, Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Elísa Elíasdóttir 5, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir og Katrín Anna Ásmundsdóttir 1 mark hver.

Í markinu átti Ethel Gyða Bjarnasen frábæran leik en hún varði 19 skot.

Fagnaðarlætin í leikslok voru einlæg, enda íslenska liðið búið að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum á HM. Mynd / IHF.