Stelpurnar í U20-kvenna töpuðu í dag gegn firnasterku liði Evrópumeistara Ungverja í 8-liða úrslitum á HM í Skopje. Lokatölur voru 34-31 eftir framlengingu.

Leikurinn hófst á heldur óhefðbundinn máta þegar rafmagnið fór af keppnishöllinni eftir um tveggja mínútna leik. Bæði lið reyndu að láta rafmagnsleysið ekki slá sig útaf laginu, en þær ungversku byrjuðu þó af miklum krafti þegar leikar hófust á ný. Í stöðunni 4-4 settu Evrópumeistararnir í fluggírinn og breyttu stöðunni í 10-5 og 15-8. Stelpurnar okkar reyndu hvað þær gátu að halda í við ungverska liðið og í hálfleik var staðan 19-12.

Allt annað var að sjá til íslenska liðsins í síðari hálfleik og eftir átta mínútna leik var staðan orðin 22-18 fyrir Ungverjaland. Stelpurnar okkar héldu áfram að berjast og með frábærum varnarleik og Ethel Gyðu í miklu stuði þar fyrir aftan náðu þær að minnka muninn í tvö mörk þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum, staðan 27-25. Lokamínúturnar voru æsispennandi. Ungverjaland náðu að komast í 29-26 þegar um tvær mínútur voru eftir, en stelpurnar okkar einfaldlega neituðu að játa sig sigraðar. Með stórbrotnum lokakafla skoruðu þær þrjú síðustu mörk leiksins og jöfnuðu metin í 29-29 úr vítakasti. Því þurfti að framlengja leikinn. Í framlengingunni reyndust þær ungversku þó örlítið sterkari og lokatölur urðu 34-31 Ungverjalandi í vil.

Það er hreinlega erfitt að koma frammistöðu stelpnanna okkar í orð eftir leikinn. Ungverjaland eru ríkjandi Evrópumeistarar og voru fyrirfram taldar lang líklegastar til að sigra heimsmeistaramótið. Íslenska liðið átti á löngum köflum í fullu tré við þær ungversku og spilaði bæði frábæra vörn og agaðan sóknarleik. Stelpurnar gáfu einfaldlega allt sem þær áttu í verkefnið og geta gengið stoltar frá leiknum í dag, þrátt fyrir afar svekkjandi tap.

Næsti leikur liðsins er á morgun gegn Svíþjóð í umspili um sæti fimm til átta á mótinu. Með sigri spila stelpurnar okkar úrslitaleik um fimmta sæti mótsins, en með tapi fara þær í leik um sjöunda sætið. Þeir leikir verða spilaðir á sunnudaginn og væntanlegir mótherjar þar eru Sviss eða Portúgal.

Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 5, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Elísa Elíasdóttir og Embla Steindórsdóttir 3, Brynja Katrín Benediktsdóttir og Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2 mörk hvor.

Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 13 bolta og Anna Karólína Ingadóttir 1.