Stelpurnar í U20 kvenna halda áfram að gera það gott á HM í Skopje, en í dag unnu þær lið Bandaríkjanna á sannfærandi hátt 36-20. Íslenska liðið hóf leikinn af krafti og komst fljótlega í 8-2. Bandaríkin náðu þó að svara fyrir sig og sýndu lipra takta á köflum þegar þær minnkuðu muninn niður í tvö mörk, 10-8. Stelpurnar okkar voru fljótar að ná sér á strik á nýjan leik og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 19-12, Íslandi í vil.

Í síðari hálfleik héldu stelpurnar áfram að bæta við forskotið, en það helgaðist að mestu af sterkum varnarleik með Önnu Karólínu Ingadóttur í miklum ham þar fyrir aftan. Lið Bandaríkjanna komst hvorki lönd né strönd og íslensk hraðaupphlaup dundu á þeim trekk í trekk. Lokatölur voru 36-20 Íslandi í vil, eftir virkilega fagmannlega frammistöðu.

Lið Bandaríkjanna er að mestu skipað leikmönnum sem leika í Evrópu og Mexíkó, en þar er að finna leikmenn meðal annars frá Þýskalandi og Noregi, auk Suður-Kóreu og fleiri landa. Leikur liðsins tekur batamerkjum með hverjum leik og það verður fróðlegt að fylgjast með liðinu leika í Forsetabikarnum á mótinu. Hjá Íslandi áttu fjölmargir leikmenn afar góðan leik og þar bar Anna Karólína svo sannarlega af í markinu en hún varði 17 bolta í dag. Sigurinn þýðir að Ísland fer taplaust í gegnum riðlakeppni HM og er búið að tryggja sér sæti í milliriðlum keppninnar. Þar leikur liðið tvo leiki, gegn Svartfjallalandi og Portúgal en Portúgal vann Svartfjallaland fyrr í dag og tekur því tvö stig með sér upp í milliriðilinn, líkt og stelpurnar okkar. Á morgun er kærkominn hvíldardagur sem verður vel nýttur til að undirbúa átökin framundan, en leikirnir í milliriðlinum verða vel auglýstir á miðlum HSÍ sem og á Handbolti.is.

Markaskor íslenska liðsins: Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 5, Lilja Ágústsdóttir 4, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Embla Steindórsdóttir og Hildur Lilja Jónsdóttir 1,

Í markinu varði Anna Karólína Ingadóttir 17 skot og Ethel Gyða Bjarnasen 3.

Sonja Lind Sigsteinsdóttir átti afar góðan leik fyrir Ísland í dag og skoraði 5 mörk. Mynd / IHF.