U19 karla | Silfur á Sparkassen Cup

U-19 ára landslið karla lék til úrslita á Sparkassen Cup í Merzig í Þýskalandi fyrr í kvöld. Eins og svo oft áður voru Þjóðverjar andstæðingar strákanna okkar og úr varð stórskemmtilegur leikir.

Þjóðverjar tóku frumkvæðið í upphafi leiks en strákarnir okkar voru ekki að baki dottnir og unnu sig fljótt inn í leikinn sem var jafn á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik, staðan 12-12 eftir 30 mín.

Íslenska liðinu gekk illa að skora í upphafi síðari hálfleiks og á meðan náðu Þjóðverjar að byggja upp 5 marka forskot. Strákarnir okkar áttu flotta endurkomu á lokamínútum leiksins og áttu möguleika að minnka muninn í eitt mark en allt kom fyrir ekki og að lokum voru það Þjóðverjar sem unnu 4 marka sigur, 27-31.

Markaskorarar Íslands:
Ágúst Guðmundsson 4, Garðar Ingi Sindrason 4, Stefán Magni Hjartarson 4, Baldur Fritz Bjarnason 3, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Andri Erlingsson 2, Bessi Teitsson 2, Leó Halldórsson 2, Daníel Bæring Grétarsson 1, Daníel Montoro 1 og Max Emil Stenlund 1.

Sigurjón Atlason varði 5 skot og Jens Sigurðarson varði 4 skot.

Flottu móti lokið hjá strákunum en þeim ber að hrósa fyrir frábæra frammistöðu undanfarna 3 daga, bæði innan vallar sem utan. Í mótslok var Jens Sigurðarson valinn besti markmaður mótsins, valið af áhorfendum í íþróttahöllinni. Næsta sumar bíður liðsins stórt verkefni en HM 19 ára landsliða fer fram í Egyptalandi í ágúst. Það verður spennandi að fylgjast með liðinu á næstu misserum, Áfram Ísland!