U19 karla | 6 marka sigur á Bahrein
U-19 ára landslið karla lék síðari leik sinn í riðlakeppni forsetabikarsins á HM í Króatíu, andstæðingar dagsins voru Bahrein og ljóst að liðið sem myndi vinna í dag endaði í 1. sæti riðilsins.
Eftir jafnar upphafsmínútur náðu strákarnir okkar frumkvæðinu og smám saman jókst forskotið. Þegar liðin gengu til búningsklefa var staðan 19-13 íslenska liðinu í hag.
Töluvert bras var á okkar mönnum framan af síðari hálfleik, fjölmargar óþarfa brottvísanir auk þess sem nýting dauðafæri hefði mátt vera betri. Samt sem áður var sigurinn aldrei í hættu, lokatölur 34-28 fyrir íslenska liðið.
Markaskorarar Íslands:
Reynir Þór Stefánsson 6, Eiður Rafn Valsson 5, Elmar Erlingsson 5, Össur Haraldsson 4, Andri Fannar Elísson 3, Kjartan Þór Júlíusson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Daníel Örn Guðmundsson 1, Haukur Ingi Hauksson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1, Hinrik Hugi Heiðarsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1.
Ísak Steinsson varði 5 skot og Breki Hrafn Árnason varði 4 skot.
Liðið hefur oft spilað betur en í dag en sigur er sigur og nú bíða Svíar í undanúrslitum forsetabikarsins á HM. Sá leikur fer fram á fimmtudagskvöld kl. 18.00 að íslenskum tíma. Á morgun færa strákarnir okkar sig um set, þeirra bíður 3 tíma rútuferð til Rijeka, þriðju stærstu borgar Króatíu sem stendur við Adríahafið. Undirbúningur fyrir leikinn gegn Svíum hefst strax í kvöld og við leyfum ykkur að fylgjast með á miðlum HSÍ á morgun.