U18 kvenna | Stórkostlegur sigur gegn heimaliði Norður-Makedóníu
Stelpurnar okkar í U18-ára landsliði kvenna unnu fyrr í kvöld sterkan sigur á heimaliði Norður-Makedóníu á HM í Skopje. Fyrir leikinn var Ísland nú þegar búið að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum mótsins, á meðan Norður-Makedónía þurfti nauðsynlega á sigri eða jafntefli að halda til að komast sömu leið.
Það var ljóst frá upphafi að stelpurnar okkar ætluðu að selja sig afar dýrt. Ísland tók frumkvæðið í leiknum strax í fyrri hálfleik og leiddi lengi vel með þremur til fjórum mörkum. Varnarleikurinn var gríðarlega sterkur og íslenska liðið sótti hratt upp þegar boltinn var unninn. Í hálfleik var staðan 13-10 Íslandi í vil.
Síðari hálfleikurinn fór vel af stað fyrir stelpurnar okkar og munurinn jókst upp í 16-11. Norður-Makedónía stigu þá rækilega á bensíngjöfina og minnkuðu muninn jafnt og þétt í 20-19 þegar rétt rúmlega tíu mínútur voru eftir af leiknum, studdar áfram af afar fjölmennri Boris Trajkovski þjóðarhöllinni í Skopje. Lokamínúturnar féllu þó Íslandi í vil, þökk sé frábærum varnarleik og mikilvægum mörkum sóknarlega sem sigldu heim afskaplega sætum 25-22 sigri. Besti leikmaður leiksins var að þessu sinni Elín Klara Þorkelsdóttir, sem skoraði 6 mörk og spilaði frábærlega í vörn.
Þrátt fyrir að hafa fyrir leikinn verið búnar að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar, ætluðu stelpurnar okkar að gefa allt í leikinn gegn Norður-Makedóníu. Síðasta viðureign liðanna tveggja var í fyrrasumar í úrslitaleik á B-keppni Evrópumóts 17-ára landsliða, þar sem Norður-Makedónía sigraði með einu marki gegn Íslandi í úrslitaleik. Sigurinn í kvöld var því afar sætur fyrir stelpurnar okkar sem eru nú enn taplausar á heimsmeistaramótinu og mæta Hollandi í 8-liða úrslitum mótsins á sunnudag. Tapið þýðir það að heimalið Norður-Makedóníu situr eftir og mun keppa um sæti 9-12 á heimsmeistaramótinu, en í staðinn kemst Svíþjóð áfram á betri markatölu. Sænskir áhorfendur á leiknum voru enda vel með á nótunum og sameinuðust okkar fólki í stúkunni í að hvetja íslenska landsliðið rækilega áfram frá upphafi til enda.
Frekari umfjöllun um leikinn má finna á helstu fréttamiðlum og þá sérstaklega á www.handbolti.is.
Markaskor íslenska liðsins: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Tinna Sigurrós Traustadóttir 5, Lilja Ágústsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 1 og Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 1.
Í markinu varði Ethel Gyða Bjarnasen 9 bolta.