U18 kvenna | 8. sætið á HM í Skopje niðurstaðan eftir tap í vítakeppni
Stelpurnar okkar enda í 8. sæti á HM í Skopje. Það var ljóst eftir tap gegn Egyptalandi 33-35 í kaflaskiptum leik, en vítakeppni á milli liðanna þurfti til að knýja fram sigur.
Leikurinn fór rólega af stað hjá báðum liðum sem skiptust á að skora mörk. Ísland tók frumkvæðið í stöðunni 4-4 og náði að komast í 9-6, áður en Egyptaland svaraði fyrir sig og snéri leiknum sér í við. Í stöðunni 10-11 fyrir Egyptaland tóku stelpurnar okkar aftur við sér og voru komnar með fjögurra marka forystu, 16-12 þegar flautað var til leikhlés.
Síðari hálfleikurinn fór vel af stað fyrir íslenska liðið sem bætti örlítið við forskotið og komst meðal annars í 19-14. Þá vaknaði egypska liðið hinsvegar aftur til lífsins og um miðjan fyrri hálfleikinn var munurinn orðinn aðeins eitt mark. Lokamínútur leiksins voru síðan æsispennandi þar sem liðin skiptust á mörkum. Stelpurnar okkar náðu forystunni á lokamínútu leiksins, 31-30 en Egyptaland náði að taka hraða miðju og jafnaði leikinn í 31-31 þegar örfáar sekúndur voru eftir og niðurstaðan því jafntefli. Þá var farið beint í vítakeppni. Þar skoraði Egyptaland úr fjórum vítum, á móti tveimur vítum frá Íslandi og sigurinn var því egypskur að þessu sinni. Lokatölur 33-35 Egyptalandi í vil.
Tapið var vissulega svekkjandi fyrir stelpurnar okkar sem áttu orðið ansi lítið eftir á bensíntanknum eftir langt og strangt mót. En lokastaðan er engu að síður glæsileg; 8. sæti á heimsmeistaramótinu, sem er besti árangur hjá íslensku kvennalandsliði í handknattleik.
Markaskor íslenska liðsins: Lilja Ágústsdóttir 12, Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Embla Steindórsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2 og Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 2.
Í markinu vörðu þær Ethel Gyða Bjarnasen og Ingunn María Brynjarsdóttir 10 bolta.