U18 karla | Sigur á Slóvenum eftir vítakeppni
U-18 ára landslið karla lék gegn Slóvenum á EM í Svartfjallalandi í dag en þetta var hluti af krossspili um 9. – 12. sæti á mótinu.
Jafnt var á með liðunum á upphafsmínútum leiksins en eftir um 10 mínútna leik tóku strákarnir okkar góðu rispu og komust 8-4 yfir. Það sem eftir lifði hálfleiksins skiptust liðin á að skora en íslenska liðið var alltaf skrefi á undan, staðan 14-9 þegar flautað var til hálfleiks.
Slóvenar mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og minnkuðu muninn niður hægt og rólega. Þegar 8 mínútur voru eftir höfðu Slóvenar jafnað og hófust þá æsispennandi lokamínútur þar sem strákarnir okkar hleyptu Slóvenum aldrei framúr en jafnt var á öllum tölum allt þar til flautað var til leiksloka, staðan 26 – 26 og því þurfti að grípa til vítakeppni.
Breki Hrafn Árnason reyndist hetja íslenska liðsins þegar þangað var komið, hann varði 2 fyrstu víti Slóvena og þrátt fyrir að strákarnir okkar hafi misnotað eitt víti þá nægðu 4 mörk til sigurs. Lokatölur eftir vítakeppni, 30-29 strákunum okkar í hag.
Markarskorarar Íslands:
Skarphéðinn Ívar Einarsson 5, Andri Fannar Elísson 4, Andrés Marel Sigurðsson 4, Sæþór Atlason 4, Atli Steinn Arnarson 3, Elmar Erlingsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Viðar Ernir Reimarsson 2 og Össur Haraldsson 1.
Breki Hrafn Árnason varði 12 skot í markinu og þar að auki 2 víti í vítakeppni.
Þetta þýðir að íslenska liðið leikur um 9. sætið á morgun kl. 15.30 að íslenskum tíma. Mótherjar strákanna okkar þar verða annað hvort heimamenn í Svartfjallalandi eða nágrannar okkar frá Færeyjum en leikur þessara liða er í gangi núna.