Í kvöld mættust u-17 ára landslið Íslands og Sviss á 4 liða móti í Frakklandi. Leikur kvöldsins var spilaður í Pont-Sainte-Maxence, norður af París.
Íslenska liðið var ekki líkt sjálfu sér í byrjun og náðu Svisslendingar strax 3-4 marka forystu. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fór munurinn mest í 6 mörk en íslensku strákarnir minnkuðu muninn í 4 mörk á lokasekúndum hálfleiksins. Fjölmargir tæknifeilar í sókninni voru dýrkeyptir, staðan í hálfleik 18-14 fyrir Sviss.
Liðið mætti inn í síðari hálfleikinn af miklum krafti og minnkaði strax muninn í 2 mörk. En þá kom bakslag í varnarleikinn, margar brottvísanir og Sviss náði aftur upp 4-5 marka mun. Íslenska liðið náði mest að minnka muninn í 3 mörk en allt kom fyrir ekki og Sviss vann sanngjarnan 4 marka sigur, 31-27.
Það er ljóst að strákarnir okkar voru langt frá sínu besta í dag. Staðan er samt sem áður þannig að sigur á morgun skilar 1. sæti í mótinu. Leikið verður við Ungverja kl 17 að íslenskum tíma og eru strákarnir staðráðnir í að gera sitt allra besta til að bæta fyrir leikinn í kvöld.
Mörk Íslands í leiknum:
Haukur Þrastarson 6, Goði Ingvar Sveinsson 5, Ólafur Júlíusson 4, Dagur Gautason 3, Viktor Jónsson 2, Dagur Kristjánsson 2, Tumi Rúnarsson 2, Arnór Óskarsson 1, Daníel Rúnarsson 1, Eiríkur Þórarinsson 1.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 12 skot og Páll Eiríksson varði 3 skot.