21 árs landslið karla tapaði í dag fyrir Króötum, 29-16, í 16 liða úrslitum heimsmeistaramótsins á Spáni. Það var einfaldlega við ofurefli að etja fyrir strákana í dag og var sigur Króata aldrei í hættu. Þeir náðu strax í byrjun fjögurra marka forskoti, 7-3, sem íslenska liðið náði að minnka niður í eitt mark um miðbik fyrri hálfleiks, 7-6. Þá tóku Króatar leikhlé og má segja að kaflaskil hafi orðið í leiknum á þeim tímapunkti því Króatar sigldu jafnt og þétt fram úr og höfðu í hálfleik sex marka forystu, 13-7.
Það má segja að síðari hálfleikur hafi verið einstefna því Króatar héldu uppteknum hætti og unnu að lokum stórsigur, 29-16. Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur Íslendinga með fimm mörk en þeir Gabríel Martinez Róbertsson og Kristófer Andri Daðason skoruðu þrjú mörk hvor.
Strákarnir munu á morgun leika um eitt af sætum 9-16 í mótinu en þegar þetta er ritað er enn beðið niðurstöðu frá mótshöldurum um andstæðinga Íslands á morgun auk leiktíma. Við munum færa fregnir af því þegar það liggur fyrir.