U-21 karla | Endurkomusigur gegn Ungverjum

U-21 árs landslið karla mætti Ungverjum í leik um 3. sætið á Tiby mótinu í Frakklandi í dag, liðin eru svipuð að styrkleika og því var von á hörkuleik.

Jafnt var á með liðunum nánast allan fyrri hálfleikinn, það var ekki fyrr en á lokamínútum hálfleiksins að íslenska liðið gaf eftir og Ungverjar höfðu tveggja marka forystu, 12-14 eftir 30 mínútur.

Töluverð harka hljóp í leikinn í síðari hálfleik, liðin fengu fjölda brottvísana og einn Ungverjinn fékk réttilega rautt spjald um miðjan síðari hálfleikinn. Þrátt fyrir þetta héldu Ungverjar forskotinu og þegar 10 mínútur lifðu leiks var forskot þeirra skyndilega komið í 4 mörk. En þá tóku strákarnir okkar við sér og áttu frábæran kafla í framhaldinu. Forskot Ungverja hvarf á stuttum tíma og lokamínúturnar voru íslenska liðsins sem unnu frábæran eins marks sigur, 29-28.

Markaskorar Íslands:
Reynir Þór Stefánsson 9, Össur Haraldsson 6, Hinrik Hugi Heiðarsson 3, Elmar Erlingsson 3, Birkir Snær Steinsson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1, Sigurður Matthíasson 1, Eiður Valsson 1 og Andri Fannar Elísson 1.

Ari Dignus Maríusson varði 9 skot í leiknum.

Þessi sigur tryggði íslenska liðinu 3. sætið í Tiby-mótinu, næsta verkefni U-21 árs landsliðsins er HM sem fer fram í Póllandi nú í sumar.