U-20 karla | Hetjuleg barátta gegn Spáni ekki nóg
U-20 ára landslið karla kláraði í dag milliriðlakeppni EM með leik gegn Spánverjum. Fyrir leik var vitað að sigurliðið myndi tryggja sér sæti í undanúrslitum en þess má geta að Spánverjar eru ríkjandi Heims- og Evrópumeistara í þessum aldursflokki.
Jafnt var á öllum tölum fyrstu mínúturnar en í stöðunni 5 – 5 skoruðu Spánverjar 5 mörk í röð og staðan skyndilega orðin 10 – 5 þegar hálfleikurinn var umþað bil hálfnaður. Strákarnir gáfust þó ekki upp og náðu að koma tilbaka og jafna leikinn í 13 – 13 þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af hálfleiknum. Það voru hinsvegar Spánverjar sem voru sterkari síðustu mínúturnar og voru yfir í hálfleik 18 – 16.
Seinni hálfleikur þróaðist svipað og á fyrri en fyrstu mínúturnar skiptust liðin á að skora og munaði 1-3 mörkum á liðunum. Um miðbik hálfleiksins fór hinsvegar sókn Íslands aðeins að hika sem skapaði tapaða bolta og auðveld mörk fyrir Spánverja fylgdu í kjölfarið. Spánverjar voru því komnir með 5 marka forskot 27 – 22 þegar 15 mínútur lifðu leiks. Því miður var orkan hjá okkar mönnum búin og Spánverjar silgdu heim sigrinum 37 – 30.
Mörk Íslands í leiknum: Reynir Þór Stefánsson 11 mörk, Össur Haraldsson 6, Birkir Snær Steinsson 5, Elmar Erlingsson 2, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Atli Steinn Arnarson 1, Eiður Rafn Valsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1 og Kjartan Þór Júlíusson 1.
Ísak Steinsson stóð í marki Íslands allan leikinn og varði 14 skot eða 32%.
Strákarnir fá stuttan tíma til að sleikja sárin því að á morgun, föstudag, tekur við leikur í keppninni um 5.-8. sætið þegar að strákarnir etja kappi við Svíþjóð á ný og fá því kjörið tækifæri til að svara fyrir tapið í riðlakeppninni. Leikurinn fer fram í Zlatorog Arena kl. 12:20 á íslenskum tíma. Áfram Ísland!