U-20 karla | 13 marka sigur gegn Svartfjallalandi
U-20 ára landslið karla lék í dag sinn fyrri leik í milliriðlum 9. – 16. sætis á Evrópumeistaramóti 20 ára landsliða í Porto. Strákarnir sýndu sitt rétta andlit frá fyrstu mínútu leiksins á vellinum og spilaði liðið frábærlega í vörn og sókn og Adam Thorstensen var frábær í marki liðsins. Þegar dómarar leiksins flautuðu til hálfleiks var Ísland með fimm marka forustu 18 – 13.
Í seinni hálfleik gáfu strákarnir okkar ekkert eftir og bættu í. Svartfjallaland sá aldrei til sólar í dag og jafnt og þétt jókst munurinn á liðunum. Að lokum tryggði Ísland sér 13 marka sigur 41 – 28.
Adam Thorstensen var valinn maður leiksins úr liði Íslands af mótshöldurum.
Mörk Íslands skoruðu Andri Már Rúnarsson 9, Benedikt Gunnar Óskarsson 5, Gauti Gunnarsson 5, Símon Michael Guðjónsson 5, Arnór Viðarsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 4, Andri Finnsson 3, Ísak Gústafsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 1, Tryggvi Þórisson 1 og Kristófer Máni Jónasson 1 mark.
Adam Thorstensen varði 16 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson 2 skot.
Á morgun leika strákarnir við Króatíu og hefst leikurinn kl.11:00. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Viaplay.
Myndir Jónas Árnason