U-20 ára landslið karla | Sigur gegn Dönunm
Strákarnir okkar og Danir léku vináttuleik að Ásvöllum í kvöld en þessi sömu lið mættust einnig í Danmörku í tveim leikjum sl. haust.
Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og náðu strax á upphafmínútunum 3 marka forystu. Eftir því sem leið á hálfleikinn bætti íslenska liðið í muninn og þegar flautað var til hálfleiks stóðu leikar 17-10.
Leikurinn jafnaðist mikið í síðari hálfleik, Danir sóttu í sig veðrið og smám saman minnkaði munurinn. Þegar um 10 mínútur lifðu leiks var munurinn kominn niður í eitt mark en þá sögðu strákarnir okkar “hingað en ekki lengra” og unnu lokakaflann 7-2. Lokatölur að Ásvöllum í kvöld 28-22 fyrir Ísland í bráðskemmtilegum leik.
Markaskorarar Íslands:
Andri Már Rúnarsson 11, Guðmundur Bragi Ástþórsson 10, Benedikt Gunnar Óskarsson 2, Arnór Viðarsson 1, Gauti Gunnarsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1, Tryggvi Þórisson 1 og Símon Michael Þórisson 1.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 14 skot í íslenska markinu.
Liðin mætast aftur að Ásvöllum á morgun (laugardag) kl. 16.00. Við hvetjum handboltafólk til að mæta á leikinn, aðgangseyri er stillt í hóf aðeins 500kr og frítt fyrir 16 ára og yngri. Fyrir þá sem ekki komast á leikinn er rétt að benda á beina útsendingu á YouTube-síðu HSÍ.