U-19 ára landslið kvenna tapaði með með 8 marka mun fyrir Svíum í fyrsta leik liðsins á Scandinavian Open Championship í Helsingborg í Svíþjóð í kvöld.
Stelpurnar okkar hófu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu tvö mörkin en þær sænsku komu strax tilbaka og náðu frumkvæðinu leiknum. Sænska liðið var í forystu en íslenska liðið barðist fyrir sínu og var aldrei langt undan, staðan í hálfleik 10-14.
Síðari hálfleikur var í jafnvægi framan af, munurinn yfirleitt 3-4 mörk en seinustu 10 mínútur náði sænska liðið góðum kafla og landaði 8 marka sigri, 21-29.
Markaskor íslenska liðsins:
Andrea Jacobsen 8, Sandra Erlingsdóttir 4, Lovísa Thompson 3, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 3, Þóra Guðný Arnarsdóttir 1, Kristín Arndís Ólafsdóttir 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1.
Ástríður Glódís Gísladóttir varði 11 skot í leiknum.
Andrea Jacobsen var valin besti leikmaður íslenska liðsins í dag. Hún spilaði mjög vel sem fremsti maður í vörninni og skoraði auk þess 8 mörk.
Íslensku stelpurnar áttu góðan leik í 50 mínútur í dag en Svíar eru með eitt af sterkustu liðunum í þessum aldursflokki. Á morgun mætar stelpurnar okkar Dönum.