Stelpurnar okkar gerðu jafntefli við Rúmeníu í lokaleik forkeppni EM. Þessi úrslit þýða að íslenska liðið situr eftir á markatölu og þær rúmensku fara á EM.

Íslensku stelpurnar hófu leikinn af miklum krafti á náðu mest 5 marka forystu snemma í leiknum en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn komst rúmenska liðið meira inni í leikinn. Þegar flautað var til leikhlés var staðan 13-12 okkar stelpum í hag.

Í síðari hálfleik var jafnt á nánast öllum tölum, mikil barátta og greinilegt að mikið var undir. Þegar 5 mínútur voru til leiksloka komst íslenska liðið 2 mörkum yfir, 22-20 en rúmenska liðið jafnaði leikinn skömmu síðar. Mikil spenna og dramatík var á seinustu mínútunni, stelpurnar okkar unnu boltann í vörninni þegar 30 sekúndur voru eftir og áttu lokasóknina. En allt kom fyrir ekki og því var 22-22 jafntefli niðurstaðan.




Markaskorar Íslands:
Lovísa Thompson 10, Sandra Erlingsdóttir 4, Andrea Jacobsen 3, Þóra Guðný Arnarsdóttir 3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1, Mariam Eradze 1.


Selma Þóra Jóhannsdóttir varði 13 skot í leiknum

Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir frábæra spilamennsku, þær hafa spilað sterkan varnarleik og agaðan sóknarleik. Það er grátlegt að detta út á markahlutfalli eftir svona frammistöðu en það er vonandi að þessi leikir fari í reynslubankann og nýtist stelpunum í framtíðinni.