U-19 karla | Þriggja marka tap gegn Portúgal
Strákarnir okkar léku í umspili um 5. – 8. sæti á EM í Króatíu í dag. Mótherjarnir voru Portúgalir sem höfðu m.a. unnið Dani í milliriðli keppninnar.
Íslenska liðið tók frumkvæðið í upphafi leiks og skoraði yfirleitt á undan en þegar leið á hálfleikinn náðu Portúgalir undirtökunum, varnarleikurinn var því miður ekki uppá marga fiska og því höfðu Portúgalir 4 marka forystu í hálfleik, 13-17.
Fyrsta mark síðari hálfleiks var íslenskt en eftir það gengu Portúgalir á lagið og náðu mest 8 marka forystu. Það var ekki fyrr en á síðustu 12 mínútum leiksins að strákarnir okkar sýndu sitt rétta andlit. Þá fór varnarleikurinn að þéttast og í kjölfarið gekk sóknarleikurinn betur auk þess sem nokkur hraðaupphlaupsmörk litu dagsins ljós. Þegar rúmar 30 sekúndur voru eftir fékk íslenska liðið tækifæri á að minnka muninn niður í eitt mark en allt kom fyrir ekki, Portúgalir skoruðu lokamark leiksins og unnu þriggja marka sigur, 30-33.
Markaskorarar Íslands:
Símon Michael Guðjónsson 9, Arnór Viðarsson 7, Guðmundur Bragi Ástþórsson 5, Andri Már Rúnarsson 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 2, Kristófer Máni Jónasson 1 og Jóhannes Berg Andrason 1.
Adam Thorstensen varði 7/1 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 4.
Símon Michael Guðjónsson var valinn besti leikmaður íslenska liðsins af mótshöldurum.
Íslenska liðið mætir Svíum í leik um 7. sætið á mótinu á sunnudag kl. 8.00 að íslenskum tíma. Við minnum á beina útsendingu á EHF TV.