u-19 ára landslið karla tapaði fyrir Egyptum í 8 liða úrslitum á HM í Norður-Makedóníu í dag.
Egyptar hófu leikinn af miklum krafti og tóku strax frumkvæðið með öflugum varnarleik og náðu fljótlega 4 marka forystu. Strákarnir okkar komu tilbaka og minnkuðu muninn í 5-6. En Egypar voru hvergi nærri hættir og keyrðu í gríð og erg á íslensku liðið í fyrri háfleik og náðu 7 marka forystu, 14-21 áður en flautað var til hálfleiks.
Íslenska liðið átti í miklum vandræðum með stóra og stæðilega leikmenn Egypta og breytti reglulega um varnarleik en Egyptum tókst samt sem áður að halda strákunum í þægilegri fjarlægð. Minnstur var munurinn 3 mörk í síðari hálfleik en að lokum höfðu Egyptar sigur 35-31.
Haukur Þrastarson og Tumi Steinn Rúnarsson skoruðu 8 mörk hvor fyrir Ísland en aðrir skoruðu minna.
Á laugardag leikur íslenska liðið gegn Frökkum kl.8.30 að íslenskum tíma í úrslitakeppni um 5.-8. sæti á HM. Nánari upplýsingar um leikinn birtast á miðlum HSÍ á morgun.