U-19 karla | 3 marka tap gegn Egyptum
U-19 ára landslið karla lék lokaleik sinn í C riðli HM í Króatíu fyrr í dag, andstæðingar voru sterkt lið Egypta.
Strákarnir okkar hófu leikinn af miklum krafti og náðu fljótlega góðri forystu, forustan var lengi vel 5 mörk en undir lok hálfleiksins fóru Egyptar að saxa á forskotið. Eftir erfiðar lokamínútur fyrri hálfleiks og mark beint úr aukakasti eftir að leiktímanum var lokið var staðan 15-14 íslenska liðinu í hag þegar liðin gengu til búningsklefa.
Áfram gekk illa að skora að skora í upphafi síðari hálfleiks þar sem framliggjandi vörn Egypta sló okkar menn útaf laginu, fljótlega var staðan orðin 16-21 fyrir Egypta og ljóst að róðurinn yrði erfiður. En þá tók við góður leikkafli hjá íslenska liðinu sem jafnaði metin 21-21 og æsispennandi lokamínútur framundan. Þrátt fyrir að strákarnir lögðu sig alla í verkefnið þá voru það Egyptar sem voru sterkari á lokakaflanum og unnu 30-33.
Markaskorar Íslands:
Reynir Þór Stefánsson 9, Eiður Rafn Valsson 6, Össur Haraldsson 4, Kjartan Þór Júlíusson 3, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Elmar Erlingsson 2, Ívar Bessi Viðarsson 2, Hans Jörgen Ólafsson 1.
Ísak Steinsson varði 12 skot og Breki Hrafn Árnason varði 1 skot.
Þessi úrslit þýða að íslenska liðið leikur um forsetabikarinn (17. – 32. sæti) á HM. Það var dýrt að tapa fyrsta leiknum í riðlinum gegn Tékkum, þar höfðu strákarnir okkar þurft að sækja tvö stig til að koma sér í góða stöðu í riðlinum. Leikurinn gegn Egyptum í dag var án nokkurs vafa besti leikur íslenska liðsins til þessa en það nægði því miður ekki til. Nú er það strákanna okkar að snúa bökum saman og mæta fílefldir til leiks í næstu leikjum, Áfram Ísland.