U-18 kvenna | Erfið byrjun á HM

Íslenska landsliðið tapaði með 11 marka mun, 28:17, fyrir landsliði Tékklands í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramóti 18 ára landsliða kvenna í Chuzhou í Kína. Fyrri hálfleikurinn reyndist stelpunum afar erfiður þar sem tapaðir boltar og slök skotnýting gerðu liðinu erfitt fyrir. Þær tékknesku nýttu sér þessi mistök ítrekað og skoruðu grimmt úr vel útfærðum hraðaupphlaupum sem skilaði liðinu 12 marka forystu í hálfleik 16:4

Íslenska liðið missti ekki móðinn þrátt slæman fyrri hálfleik og lék liðið mun betur í þeim síðari, jafnt í vörn sem sókn með þeim afleiðingum að það tókst að hafa í fullu tréi við leikmenn Tékka og sleppa betur frá leiknum en útlit var fyrir að loknum fyrri hálfleik. Lokatölur leiksins voru 28:17.

Mörk Íslands: Dagmar Guðrún Pálsdóttir 3, Þóra Hrafnkelsdóttir 3, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Lydía Gunnþórsdóttir 2/1, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Ásrún Inga Arnarsdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1, Kristbjörg Erlingsdóttir 1.
Varin skot: Elísabet Milly Elíasardóttir 6, 38% – Ingunn María Brynjarsdóttir 4/1, 20%

Næsti leikur íslenska liðsins verður gegn Þýskalandi á föstudagsmorgun. Flautað verður til leiks klukkan 6 að morgni að íslenskum tíma, 14 að staðartíma í Chuzhou. Þýska landsliðið vann Gíneu eldsnemma í morgun, 42:18.