U-18 ára landslið karla tapaði fyrir Svíum í úrslitaleik á EM í Króatíu fyrr í dag, lokatölur 27-32 Svíum í hag.

Íslenska liðið byrjaði illa og gekk afar illa að skora á upphafsmínútum leiksins, Svíar gengu á lagið og náðu góðu forskoti og var staðan 9-3 eftir um 15 mínútna leik. En þá rönkuðu strákarnir okkar við sér, skoruðu 6 mörk í röð og skyndilega var leikurinn jafn í ný. Hálfleikstölur 12-12.

Í byrjun síðari hálfleiks náðu Svíar forystu á nýjan leik en íslenska liðið var alltaf skammt undan og jafnaði leikinn á ný í stöðunni 17-17. En þá hrökk allt í baklás og Svíar náðu fljótlega 5 marka forystu, það bil náðu strákarnir okkar ekki að brúa og unnu Svíar sanngjarnan 5 marka sigur, 27-32.

Íslensku strákarnir geta verið stoltir af sínum árangri í mótinu, verðlaunasæti á Evrópumóti er ekki sjálfgefinn hlutur og þessi minning á eftir að lifa með strákunum næstu árin.

Úrvalslið mótsins var tilkynnt eftir úrslitaleikinn í dag. Dagur Gautason var valinn besti vinstri hornamaðurinn og þá var Haukur Þrastarson valinn mikilvægasti leikmaður mótsins (MVP).



Markaskorarar Íslands:

Eiríkur Guðni Þórarinsson 7, Haukur Þrastarson 4, Dagur Gautason 4, Arnór Snær Óskarsson 4, Tumi Steinn Rúnarsson 2, Einar Örn Sindrason 2, Goði Ingvar Sveinsson 2, Jón Bald Freysson 1, Stiven Tobar Valencia 1.