U-18 karla | Tap gegn Dönum

U-18 ára landslið karla mætti Dönum í undanúrslitum á EM í Svartfjallalandi fyrr í dag. Danir enduðu í efst sæti í sínum milliriðli á meðan íslenska liðið var í öðru sæti á eftir Svíum sín megin. Mikil eftirvænting var fyrir leiknum meðal drengjanna enda ekki á hverjum degi sem íslenskt landslið leikur í undanúrslitum á stórmóti.

Fyrri hálfleikur hófst frekar rólega þar sem liðin skiptust á að hafa forystu en eftir að strákarnir okkur komust í 6-5 tók við skelfilegur kafli þar sem danska liðið fór á kostum. Þeir skoruðu hvert markið á fætur öðru og höfðu 9 marka forystu þegar liðin gengu til búningsklefa, staðan 9-18.

Íslenska liðið hóf síðari hálfleikinn af krafti og smám saman minnkaði munurinn og fór minnst niður í 5 mörk. Hetjuleg barátta strákanna okkar dugði þó skammt þar sem Danir stóðust áhlaupið og lönduðu sanngjörnum sigri, lokatölur 34-26.

Markaskorarar Íslands:
Dagur Árni Heimisson 9, Ágúst Guðmundsson 5, Stefán Magni Hjartarson 4, Jens Bragi Bergþórsson 4, Garðar Ingi Sindrason 2, Harri Halldórsson 1 og Magnús Dagur Jónatansson 1.

Jens Sigurðarson varði 4 skot í leiknum.

Fyrri hálfleikurinn í dag var líklega það slakasta sem við höfum séð til liðsins hingað til á mótinu en það ber þó að hrósa þeim fyrir góðan síðari hálfleik þar sem þeir sýndu úr hverju þeir eru gerðir. Þetta þýðir að strákarnir okkar leika um 3. sætið á mótinu gegn annaðhvort Ungverjum eða Svíum og fer sá leikur fram á sunnudag kl. 15:00. Við minnum á umfjöllun handbolti.is um EM 18 ára liða hér í Svartfjallalandi.