Strákarnir okkar unnu tveggja marka sigur á Serbum í leik um 7. sætið á EM 18 ára liða.
Liðin skiptust á leiða í fyrri hálfleik, augljóslega var þreyta í báðum liðum enda löngu móti að ljúka. Það voru þó Serbar sem höfðu yfir í hálfleik, 17-16.
Í síðari hálfleik sóttu íslensku strákarnir í sig veðrið og komust yfir. Þó að Serbarnir væru aldrei langt undan héldu strákarnir forystunni út leikinn og unnu góðan sigur í lokaleik mótsins. Lokatölur 32-30 fyrir Ísland.
Mörk Íslands í leiknum:
Gísli Þorgeir Kristjánsson 16, Teitur Örn Einarsson 7, Elliði Snær Viðarsson 5, Arnar Freyr Guðmundsson 1, Kristófer Dagur Sigurðsson 1, Bjarni Valdimarsson 1, Pétur Hauksson 1.
Andri Scheving varði 6 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 1.
Markmið liðsins var að komast í efri hlutann og það tókst. Liðið hefur nú tryggt sig inná HM í Georgíu á næsta ári og auk þess á EM 20 ára liða árið 2018. Strákarnir eru reynslunni ríkari eftir þessa keppni og stefna eflaust á að koma ennþá sterkari til leiks á HM á næsta ári.
Viðtöl,myndbrot og myndir koma á samfélagsmiðla HSÍ síðar í dag.