U-18 ára landslið karla vann eins marks sigur á Noregi í fyrsta leik liðsins á Nations Cup í Lubeck í Þýskalandi.
Norðmenn voru á undan að skora fyrstu 10 mínúturnar en eftir það höfðu íslensku strákarnir góð tök á leiknum og leiddu í hálfleik með 2 mörkum, 13-11.
Síðari hálfleikur byrjaði hægt en þegar 10 mínútur lifðu leiks höfðu strákarnir okkar náð 5 marka forystu. Þá lifnuðu Norðmenn við á nýjan leik og minnkuðu muninn niður í eitt mark þegar skammt var til leiksloka. Íslenska liðið náði þó að hanga á þeirri forystu sem skilaði eins marks sigri, 26-25.
Leikurinn í dag var kaflaskiptur og margt hægt að bæta. Á morgun mætir íslenska liðið Þjóðverjum og það er ljóst að til að leggja þá þarf að gera betur en í dag. Leikurinn á morgun hefst kl. 18.30 að íslenskum tíma.
Markarskorarar Ísland:
Haukur Þrastarson 9, Arnór Snær Óskarsson 5, Dagur Gautason 4, Einar Örn Sindrason 2, Stiven Tobar Valencia 2, Hafsteinn Óli Ramos Rocha 2, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1 og Eiríkur Þórarinsson 1.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 17 skot í íslenska markinu.