Strákarnir unnu í dag frábæran sigur á sterku liði Svía í hörkuleik. Þrátt fyrir að á móti hafi blásið í byrjun leiks gáfust strákarnir aldrei upp og stóðu uppi sem sigurvegarar eftir 60 mínútur.
Íslenska liðið var ekki alveg vaknað í byrjun leiks og náðu Svíarnir strax þægilegu 3-4 marka forskot. En eftir því sem leið á hálfleikinn komust okkar strákar í góðan takt við leikinn og aðeins munaði einu marki í hálfleik, 15-16 Svíum í hag.
Í seinni hálfleik var allt í járnum þangað til á 49. mínútu en þá komust strákarnir okkar yfir í fyrsta skipti, 25-24. Eftir það var ekki aftur snúið, skyndilega var kominn 4 marka munur og þó að Svíar hafi náð að hleypa spennu í leikinn á lokamínútunum var sigurinn aldrei í hættu. Lokatölur 32-29 fyrir Ísland.
Það má með sanni segja að þetta hafi verið sigur liðsheildarinnar, eftir að þjálfararnir skiptu í 5-1 vörn um miðjan fyrri hálfleik þéttist vörnin til muna. Þá munaði mikið um innkomu Viktors Gísla Hallgrímssonar í markið í seinni hálfleik en hann átti stórleik.
Mörk Íslands í leiknum:
Teitur Örn Einarsson 9, Gísli Þorgeir Kristjánsson 7, Elliði Snær Viðarsson 5, Sveinn Jóhannsson 4, Kristófer Sigurðsson 4, Alexander Másson 1, Sveinn Sveinsson 1 og Ágúst Grétarsson 1.
Andri Scheving varði 5 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 10 skot.
Á morgun er frídagur á liðinu en á sunnudaginn er leikið við Tékka kl. 15.30. Leikurinn er sýndur í beinni útsendingu á youtube-síðu mótsins.
Viðtöl, myndir og myndbrot birtast á samfélagsmiðlum HSÍ í kvöld.