U-18 karla | Sannfærandi sigur gegn Ungverjum

Strákarnir okkar léku fyrsta leikinn í 4-liða móti í Balatonboglár í Ungverjalandi fyrr í dag. Heimamenn voru fyrstu andstæðingarnar og átti íslenska liðið von á hörkuleik.

Drengirnir hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörkin en heimamenn svöruðu með fjórum mörkum í röð og næstu mínúturnar var allt í járnum. En um miðjan fyrri hálfleikinn skipti íslenska liðið um vörn og í framhaldinu komu nokkur góð hraðaupphlaup sem skiluðu góðu forskoti, staðan í hálfleik 11-18 fyrir okkar menn.

Leikurinn jafnaðist í síðari hálfleik en þegar 10 mínútur lifðu leiks höfðu strákarnir okkar náð 10 marka forskoti og í raun ljóst í hvað stefndi. Það var lítil spenna á lokamínútunum og íslenskur sigur staðreynd, 25-31.

Markaskorar Íslands:
Dagur Árni Heimisson 7, Ágúst Guðmundsson 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Harri Halldórsson 3, Ævar Gunnarsson 2, Garðar Ingi Sindrason 2, Dagur Leó Fannarsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Nathan Helgi Doku Assaru 2, Ingvar Dagur Gunnarsson 1 og Bernard Christian Owusu Darkho 1.

Jens Sigurðarson varði 14 skot og Elías Sindri Pilsman varði 2.

Frábær sigur hjá strákunum í dag en á morgun eru það Slóvenar sem bíða. Leikurin hefst kl. 13.45 og að sjálfsögðu verður hægt að fylgjast með streymi frá leiknum. Það verður auglýst á miðlum HSÍ á morgun.