U-18 karla | Norðmenn lagðir af velli

U-18 ára landslið karla gat tryggt sér sæti í undanúrslitum á EM í Svartfjallalandi með sigri á Norðmönnum í hádeginu. Svíar unnu Spánverja með 6 mörkum fyrr í dag og því var ljóst að sigur og ekkert annað myndi nægja íslenska liðinu.

Strax í upphafi mátti sjá að strákarnir voru mjög einbeittir, frábær varnarleikur bæði í 6:0 og 5:1 skilaði liðinu fjölmörgum hraðaupphlaupum og í hálfleik var 8 marka munur, 17-9.

Strákarnir okkar héldu áfram að bæta í forskotið í síðari hálfleik og var sérstaklega gaman að sjá leikmenn koma inn af bekknum og skila sínu hlutverki með sóma. Mestur var munurinn 12 mörk og þó að Norðmenn hafi náð að laga stöðuna á lokamínútunum var sigurinn aldrei í hættu, lokatölur 31-25.

Markaskorarar Íslands:
Ágúst Guðmundsson 6, Garðar Ingi Sindrason 4, Harri Halldórsson 4, Antoine Óskar Pantano 3, Stefán Magni Hjartarson 3, Dagur Árni Heimisson 2, Dagur Leó Fannarsson 2, Ævar Smári Gunnarsson 2, Nathan Helgi Doku Asare 1, Daníel Montoro 1, Magnús Dagur Jónatansson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1

Jens Sigurðarson varði 13 skot og Elías Sindri Pilman varði 3 skot.

Með þessum sigri tryggðu strákarnir okkar sér sæti í undanúrslitum á EM en sá leikur verður spilaður seinnipartinn á morgun, ekki verður ljóst fyrr en í kvöld hverjir mótherjarnir verða. Nánar um það á miðlum HSÍ í kvöld og að sjálfsögðu minnum við á glæsilega umfjöllun um mótið á handbolti.is.