U-18 karla | Góður sigur gegn Færeyingum í fyrsta leik

U-18 ára landslið karla hóf leik á EM í Svartfjallalandi í kvöld og voru það nágrannar okkar frá Færeyjum sem voru fyrstu andstæðingar liðsins. Liðin hafa mæst nokkrum sinnum áður og fyrirfram var reiknað með hörkuleik.

Jafnt var á með liðunum fyrstu mínúturnar og lítið skorað en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn náðu strákarnir okkar góðum tökum á leiknum. Eftir þennan góða kafla hafði íslenska liðið 6 marka forystu í hálfleik, staðan 15-9.

Bæði sókn og vörn voru vel smurð í upphafi síðari hálfleiks og fljótlega var íslenska liðið komið með 10 marka forystu. Eftur það slaknaði heldur á spilamennsku strákanna okkar en engu að síður öruggur sigur staðreynd. Lokatölur 32-23

Markaskorarar Íslands:
Dagur Árni Heimisson 13, Jens Bragi Bergþórsson 5, Ágúst Guðmundsson 3, Bernard Kristjan Owusu Darkoh 3, Garðar Ingi Sindrason 2, Magnús Dagur Jónatansson 2, Stefán Hjartarson 1, Antoine Óskar Pantano 1, Ævar Smári Gunnarsson 1 og Harri Halldórsson 1.

Jens Sigurðarson varði 9 skot og Elías Sindri Pilman varði 2 skot.

Á morgun mæta íslensku strákarnir Ítölum, leikurinn hefst kl. 17:30 að íslenskum tíma. Að lokum viljum við minna á ítarlega umfjöllun um íslenska liðið og mótið í heild sinni á handbolti.is