U-18 karla | Frábær sigur gegn Svíum
U-18 ára landslið karla lék sinn fyrsta leik í milliriðli á EM í Svartfjallalandi í morgun. Svíar voru andstæðingar dagsins en þeir unnu alla sína leiki í riðlakeppninni og ljóst að hér væru tvö sterk lið að mætast.
Leikurinn var hraður og skemmtilegur strax frá byrjun og bæði lið skiptust á að skora. Eftir um 15 mínútna leik náðu strákarnir okkar að binda saman vörnina á meðan Jens Sigurðarson átti stórleik í markinu. Þetta skilaði mest 6 marka forystu sem Svíar náðu þó að minnka áður en flautað var til hálfleiks, staðan 19-16 fyrir okkar menn þegar liðin gengu til búningsklefa.
Eftir hálfleikinn hægðist á báðum liðum en strákarnir okkar höfðu framan af 3-4 marka forystu. Þá tók við góður kafli Svía sem minnkuðu muninn niður í eitt mark en íslenska liðið kom tilbaka og ískaldir sigldu strákarnir heim frábærum sigri, lokatölur 34-29.
Markaskorarar Íslands:
Ágúst Guðmundsson 12, Harri Halldórsson 7, Dagur Árni Heimisson 5, Garðar Ingi Sindrason 5, Jens Bragi Bergþórsson 4 og Stefán Magni Hjartarson 1.
Jens Sigurðarson varði 16 skot í leiknum.
Magnaður sigur hjá strákunum okkar í dag en það er stutt í næsta verkefni, liðið mætir Spánverjum á morgun og hefst leikurinn kl. 12.30 að íslenskum tíma. Nú tekur við undirbúningur fyrir þann leik, bæði hvíld og fundarhöld. Við minnum á umfjöllun um mótið á handbolti.is