U-17 kvenna | Sigur í undanúrslitum gegn Spánverjum

Stelpurnar okkar mættu Spánverjum í undanúrslitum EHF Championship í Svyturio Arena í Klaipéda í dag.

Íslenska liðið byrjaði þennan leik af miklum krafti og náði forystunni í byrjun leiks og leiddu mest 6-2 en Spánverjarnir voru ekki af baki dottnir og reyndu hvað þeir gátu að klóra í bakkann en íslensku stelpurnar voru tveimur mörkum yfir þegar fyrri hálfleik lauk 17-15.

Seinni hálfleikurinn var gífurlega jafn og þegar 20 mínútur voru eftir komust Spánverjar yfir í fyrsta skipti í leiknum 21-22 og var jafnt á öllum tölum það sem eftir lifði leiks þangað til 40 sekúndur voru eftir og íslenska liðið tekur leikhlé í stöðunni 31-31. Inga Dís Jóhannsdóttir skoraði þegar 20 sekúndur lifðu leiks og kom íslenska liðinu yfir 32-31 þá tóku Spánverjar leikhlé og misstu boltann í loka sókn sinni svo þar við sat. Tinna Sigurrós Traustadóttir var valin maður leiksins hjá íslenska liðinu í dag í stórkostlegri liðsframmistöðu.

Markaskorarar Íslands:
Tinna Sigurrós Traustadóttir 7, Elísa Elíasdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 3, Amelía Dís Einarsdóttir 2, Sara Dröfn Richardsdóttir 2.

Elísa Helga Sigurðsdóttir varði 5 skot og Ingunn María Brynjarsdóttir varði 4 skot.

Íslenska liðið er því á leið í úrslitaleik á morgun klukkan 15:00 á íslenskum tíma en mótherjar liðsins verða annað hvort Pólland eða Norður-Makedónía.