U-17 kvenna | Komnar í undanúrslit eftir sigur á Hvíta-Rússlandi
Stelpurnar okkar mættu Hvíta-Rússlandi í sínum þriðja leik í riðlakeppninni í Litháen í dag.
Hvít-Rússar náðu strax undirtökunum í leiknum með markvissum sóknarleik og héldu forystunni út hálfleikinn þar sem íslenska liðið fór illa með dauðafærin sín og stóðu leikar 11-15 í hálfleik Hvít-Rússum í vil.
Íslenska liðið gaf tóninn í seinni hálfleiknum og gerði 3 fyrstu mörk hálfleiksins og var leikurinn í járnum út leikinn. Þegar 10 mínútur lifðu leiks stóðu leikar jafnir í 21-21 en við tóku æsilegar lokamínútur þegar Hvít-Rússar komust þremur mörkum yfir 22-25 þegar 6 mínútur voru eftir. Þá skellti íslenska liðið í lás og vann hvern boltann af fætur öðrum í vörninni sneri leiknum sér í vil og unnu að lokum 26-25 baráttu sigur. Elísa Elíasdóttir var valinn maður leiksins hjá íslenska liðinu í dag er það tryggði sér sæti í undanúrslitum mótsins.
Markaskorarar Íslands:
Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Elísa Elíasdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3 mörk, Amelía Dís Einarsdóttir 2, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Þóra Björg Stefánsdóttir 1 og Inga Dís Jóhannsdóttir 1.
Ingunn María Brynjarsdóttir stóð fyrir sínu í markinu og varði 10 skot.
Íslenska liðið er því með fullt hús stiga í riðlinum líkt og Pólverjar sem íslenska liðið mætir á morgun klukkan 12:00 á íslenskum tíma þar sem keppt verður um 1.sæti riðilsins.