Ísland spilaði sinn fyrsta leik á EM í Makedóníu í kvöld á móti Kosovo og tapaðist leikurinn með einu marki.
Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks. Kosovo voru fyrri til að skora framan af, +en þegar fyrri hálfleikurinn var um það bil hálfnaður hafði Ísland náð að komast yfir 8-7. En þá kom slæmur kafli þar sem liðið fór illa með dauðafæri og gerði of mikið af sóknarmistökum. Kosovo nýtti sér það og leiddi í hálfleik 12-16.
Síðari hálfleikurinn spilaðist þannig að liðin skiptust á að skora og lítið gekk hjá íslenska liðinu að saxa á forskot Kosovosteplna. Þegar 10 mínútur voru eftir kom íslenska liðið til baka og hóf að minnka muninn. Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem íslenska liðið náði að jafna þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir og fengu tækifæri til að komast yfir skömmu síðar. En því miður gekk það ekki eftir og þess í stað skoraði Kosovo sigurmarkið í lokin og unnu 25-26.
Markaskorarar Íslands í leiknum:
Berta Rut Harðardóttir 7, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5, Sara Dögg Hjaltadóttir 4, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 3, Alxeandra Líf Arnarsdóttir 2, Birta Rún Grétarsdóttir 1, Harpa María Friðgeirsdóttir 1, Þóra María Sigurjónsdóttir 1, Ísabella Maria Eriksdóttir 1.
Sara Sif Helgadóttir varði 5 skot í fyrri hálfeik og Margrét Einarsdóttir varði 7 skot í þeim síðari.
Berta Rut Harðardóttir var valinn besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum.
Næsti leikur liðsins er við Búlgaríu á miðvikudaginn kl 17 að íslenskum tíma. Stelpurnar eru staðráðnar í að gera betur og ætla sér sinn fyrsta sigur í mótinu.