Strákarnir okkar mættu Þjóðverjum í morgun og Ítalíu eftir hádegið á Miðjarðarhafsmótinu í París.
Leikurinn gegn Þjóðverjum var í járnum í fyrsta leikhluta, en Þjóðverjar sigu þó framúr á seinustu mínútunum og höfðu 7-10 forystu eftir 15 mínútur. Sama baráttan var í öðrum leikhluta, bæði lið að spila góðan handbolta, staðan að honum loknum 13-17. En þá var sem allur vindur væri úr íslensku strákunum og Þjóðverjar völduðu yfir okkar menn, lokatölur 17-28.
Markaskorarar Íslands í leiknum:
Arnór Snær Óskarsson 5, Goði Ingvar Sveinsson 3, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 2, Jónatan Marteinn Jónsson 2, Dagur Gautason 2, Magnús Axelsson 1, Tjörvi Týr Gíslason 1, Viktor Jónsson 1.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 12 skot og Björgvin Franz Björgvinsson varði 3 skot.
Seinni leikur dagsins var gegn Ítölum, íslensku strákarnir voru lengi að komast í gang og gekk illa að skora á móti hreyfanlegri ítalskri vörn í fyrsta leikhluta, staðan að honum loknum var 3-6. Í öðrum leikhluta komu íslensku strákarnir tilbaka og minnkuðu muninn í 8-10. En lokaleikhlutinn var ekki okkar manna, Ítalir gengu á lagið og unnu sanngjarnan 15-20.
Markaskorarar Íslands í leiknum:
Arnar Rúnarsson 4, Arnór Snær Óskarsson 3, Dagur Kristjánsson 3, Daníel Rúnarsson 2, Goði Ingvar Sveinsson 2, Viktor Jónsson 1.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 17 skot í leiknum.
Það er ljóst að okkar strákar geta spilað handbolta en þá það vantar uppá stöðugleika hjá liðinu bæði í vörn og sókn. Þess vegna er mikilvægt að fá mót eins og þetta þar sem strákarnir fá dýrmæta reynslu fyrir Evrópu- og heimsmeistaramót sem bíða þeirra í næstu mótum.
Á morgun mæta íslenska strákarnir Túnis kl. 8.00 að íslenskum tíma.