U-17 ára landslið karla hóf keppni á European Open í dag þar sem strákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu báða andstæðinga sína.
Fyrri leikur dagsins var gegn Hvítrússum, jafnt var á með liðunum framan af leik en íslensku strákarnir sigu framúr eftir því sem leið á hálfleikinn og höfðu þriggja marka forystu, 12-9 þegar liðin gengu til búningsklefa.
Hvítrússar jöfnuðu fljótlega í síðari hálfleik og náðu tveggja marka forystu þegar innan við 10 mínútur voru eftir. En þá tóku strákarnir okkar við sér á nýjan leik og komust yfir þegar ein mínúta var eftir. Lokasekúndurnar voru í meira lagi dramatískar, Hvítrússar skoruðu þegar 1 sek lifði leiks en dómarar leiksins dæmdu í sömu mund sóknarbrot og því voru það íslensku strákarnir sem unnu eins marks sigur, 22-21.
Markaskorarar Íslands í leiknum:
Jón Bald Freysson 5, Stiven Tobar Valencia 4, Ívar Logi Styrmisson 3, Arnar Steinn Arnarsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Einar Örn Sindrason 2, Ingólfur Örn Hafþórsson 1, Blær Hinriksson 1.
Björgvin Franz Björgvinsson varði 10 skot og Sigurður Dan Óskarsson varði 4 skot.
Seinni leikur dagsins var gegn Finnum. Strákarnir okkar spiluðu frábæra 5-1 vörn í fyrri hálfleik sem gaf fjölmörg hraðaupphlaup og var staðan í hálfleik 15-8.
En Finnar bitu frá sér í síðari hálfleik og minnkuðu muninn niður í tvö mörk þegar 7 mínútur voru eftir. En þá tóku íslensku strákarnir aftur við sér og kláruðu leikinn með stæl, 23-17.
Markaskorarar Íslands í leiknum:
Blær Hinriksson 5, Stiven Tobar Valencia 5, Jón Bald Freysson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Einar Örn Sindrason 2, Ívar Logi Styrmisson 2, Ingólfur Hafþórsson 1.
Sigurður Dan Óskarsson varði 8 skot og Björgvin Franz Björgvinsson varði 5 skot.
Á morgun leika strákarnir gegn Tékkum og hefst leikurinn kl. 10.00 að íslenskum tíma. Tékkar unnu einnig báða leiki sína í dag og eru því bæði liðin örugg áfram í milliriðla í keppni um sæti 1-8.