U-17 ára landslið karla tapaði fyrir Ungverjum í leik um 7. sætið á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í morgun.
Strákarnir virkuðu ennþá hálfsofandi þegar leikurinn hófst og misstu Ungverja strax langt framúr sér. Þrátt fyrir að spilamennskan hafi aðeins skánað þegar leið á hálfleikinn var staðan 11-17 í hálfleik.
Allt annað var að sjá til liðsins í síðari hálfleik og voru strákarnir fljótlega búnir að minnka muninn í 2 mörk, 18-20. Hélst sá munur þar til 2 mínútur voru til leiksloka, en þá skoruðu Ungverjar seinustu 3 mörkin og tryggðu sér 5 marka sigur, 24-29.
Markaskorarar Íslands í leiknum:
Haukur Þrastarson 6, Hafsteinn Óli Ramos Rocha 3, Tjörvi Týr Gíslason 2, Ólafur Haukur Júlíusson 2, Arnór Snær Óskarsson 2, Eiríkur Guðni Þórarinsson 2, Daníel Freyr Rúnarsson 2, Goði Ingvar Sveinsson 2, Dagur Gautason 1, Dagur Kristjánsson 1, Arnar Máni Rúnarsson 1.
Björgvin Franz Björgvinsson varði 9 skot í leiknum.
Þá er þátttöku liðsins í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar lokið, liðið sýndi á löngum köflum góða spilamennsku í mótinu en þó vantar uppá stöðugleika til að vinna allra bestu liðin. Það er mikilvægt að strákarnir taki það góða með sér og læri af því sem miður fór í mótinu. Næsta verkefni liðsins er Sparkassen-Cup í Þýskalandi milli jóla og nýárs.