Íslenska U-17 ára landslið karla hefur verið á European Open í Gautaborg í Svíþjóð undanfarna daga. Strákarnir léku sinn áttunda leik á fimm dögum í dag gegn Hvítrússum í leik um bronsverðlaunin.

Strákarnir höfðu frumkvæðið í jöfnum leik fyrstu mínútur leiksins en það var á tíundu mínútu leiksins sem það fór að draga á milli liðanna. Hvítrússarnir komust mest í 7 marka forskot, 14-7 en þá tók við frábær kafli okkar manna og staðan var jöfn í leikhléi 16-16.

Í síðari hálfleiknum höfðu Hvítrússar frumkvæðið nær allan tímann. Það var ekki fyrr en skammt var eftir af leiknum að okkar menn náðu að jafna leikinn í 24-24. Þá var ekki aftur snúið og okkar menn uppskáru gríðarlega sætan 30-29 sigur í spennuþrungnum leik.

Strákarnir okkar náðu því að tryggja bronsverðlaunin á þessum sterka móti.

Markakskor:

Benedikt Gunnar Óskarsson 5, Jóhannes Berg Andrason 5, Ísak Gústafsson 5, Tryggvi Þórisson 3, Símon Michael Guðjónsson 3, Arnór Viðarsson 2, Guðmundur Bragi Ástþórsson 2, Jakob Aronsson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Arnór Ísak Haddsson 1. 

Markvarsla:

Magnús Gunnar Karlsson 6 og Brynjar Vignir Sigurjónsson 6.

Á morgun, laugardag flýgur liðið heim eftir skemmtilega daga í Gautaborg. Við tekur æfingatörn þar til liðið fer til Baku í Azerbaijan á Ólympíuhátið Evrópuæskunnar en þar taka þátt 8 bestu þjóðir heims í þessum árgangi. Nánari fregnir af því móti og árangri liðsins þegar nær dregur.