U-17 ára landslið Íslands vann Noreg 31-25 í Scandinavium höllinni í Gautaborg og tryggði sér þar með 3. sætið á European Open.
Leikurinn fór fjörlega af stað, íslenska liðið byrjaði betur en Norðmenn komu sterkir tilbaka og náðu 4 marka forystu þegar 23 mínútur voru liðnar. Strákarnir okkar tóku þá mikinn sprett, jöfnuðu leikinn og komust yfir á örskömmum tíma. Staðan í hálfleik 14-13.
Í síðari hálfleik komst íslenska liðið fljótlega 4 mörkum yfir, 20-16 en Norðmenn voru fljótir að jafna 20-20. En þá tóku íslensku strákarnir frábæran kafla, lokuðu vörninni og keyrðu hraðaupphlaup eins og enginn væri morgundagurinn. Lokatölur urðu 31-25, magnaður sigur á frændum okkar frá Noregi.
Markaskorarar Íslands í leiknum:
Ívar Logi Styrmisson 8, Stiven Tobar Valencia 7, Einar Örn Sindrason 6, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4, Jón Bald Freysson 2, Davíð Elí Heimisson 1, Arnar Steinn Arnarsson 1, Blær Hinriksson 1, Magnús Orri Axelsson 1.
Sigurður Dan Óskarsson varði 20 skot í marki íslenska liðsins.
Þriðja sæti á European Open verður að teljast frábær árangur hjá þessu liði, strákarnir hafa vaxið með hverjum leik og myndað frábæra liðsheild sem hjálpað þeim í gegnum hvern leikinn á fætur öðrum í þessu móti.
Næsta verkefni U-17 ára landsliðs karla er Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í lok júlí en þangað fer annar hópur leikmanna. Það er stór hópur leikmanna sem fær að reyna fyrir sér með landsliðunum í sumar og þetta sýnir hversu mikil breidd er að skapast í yngri landsliðunum.