Strákarnir í U-16 ára landsliði karla áttu sannarlega flottan dag í Aþenu á Vrilittos Cup. Fyrst léku þeir gegn Rúmenum og síðan gegn Króötum.

Það var á hreinu frá upphafi gegn Rúmenum í morgun að annað liðið vildi sigurinn meira. Okkar menn voru frábærir varnarlega með Adam Thorstensen í stuði í markinu. Það skilaði mörgum hraðaupphlaupsmörkum og þegar flautan gall í hálfleik var staðan 16-8 okkur í vil. Rúmenar fengu engin tækifæri til að komast inn í leikinn og lokastaðan 28-21.


Markaskor Íslands:

Benedikt Gunnar Óskarsson 8, Kristófer Máni Jónasson 6, Reynir Freyr Sveinsson 4, Arnór Ísak Haddsson 3, Gunnar Hrafn Pálsson 2, Arnór Viðarsson 1, Ari Pétur Eiríksson 1, Kristján Pétur Barðason 1 og Tryggvi Þórisson 1.

Í markinu varði Adam Thorstensen 12 skot (44%) og Magnús Gunnar Karlsson 2 skot (25%).

Í seinni leik dagsins léku okkar menn gegn Króötum. Fyrir leikinn var vitað að sigur skilaði okkar mönnum í undanúrslit. Leikurinn var í járnum allan leikinn og mikil barátta. Liðin skiptust á að hafa forskot í leiknum. Staðan í hálfleik 14-12 fyrir Íslandi. Seinasta sókn leiksins var ekki fyrir hjartveika, Ísland tók leikhlé þegar 39 sekúndur voru eftir. Stuttu eftir það fór höndin hjá dómurum upp til merkis um leiktöf. Við áttum misheppnað skot en Arnór VIðarsson vann baráttuna um frákastið og fengum við því nýtt tækifæri til að gera út um leikinn. Þegar 8 sekúndur voru eftir opnaðist hægra hornið og Kristófer Máni Jónasson skoraði sigurmarkið. Króatar tóku leikhlé en ekkert varð úr tilraun þeirra til að jafna og virklega sætur sigur á sterku liði Króata sem unnu aðra leiki í riðlinum sannfærandi.

Markaskor Íslands:

Benedikt Gunnar Óskarsson 8, Arnór Ísak Haddsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Reynir Freyr Sveinsson 3, Kristófer Máni Jónasson 3, Arnór Viðarsson 2, Tryggvi Þórisson 2 og Ari Pétur Eiríksson 1.

Í markinu varði Adam Thorstensen 5 skot og Magnús Gunnar Karlsson 2 skot.

Með þessum úrslitum er íslenska liðið komið í undanúrslit mótsins og leikur þar gegn Ísrael sem fór taplaust í gegnum hinn riðilinn. Sigurliðið úr þeim leik leikur til úrslita á mótinu.