Ísland vann Austurríki 37-34 í vináttulandsleik í handbolta í Schenker höllinni að Ásvöllum í kvöld í stórskemmtilegum leik. Ísland var einu marki yfir í hálfleik 18-17.
Vinstri vængur íslenska liðsins fór á kostum í leiknum og skoraði alls 26 mörk. Aron Pálmarsson skoraði 10 mörk úr 11 skotum, Guðjón Valur 8 mörk úr 10 skotum og Arnór Atlason skoraði úr öllum 7 skotunum sínum. Mögnuð frammistaða hjá þessum frábæru leikmönnum.
Liðin buðu ekki upp á merkilegan varnarleik og framan af leik var baráttan í lágmarki og vináttan í hámarki. Það var þó upp úr miðjum fyrri hálfleiknum og Ísland fór að berjast og komst liðið þá yfir í fyrsta sinn í leiknum.
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn frábærlega og komst fimm mörkum yfir. Þá gaf liðið aftur eftir og Austurríki var aldrei langt undan þó Ísland héldi forystunni allt til leiksloka.
Sóknarleikur Íslands var mjög öflugur og hraðaupphlaupin líka. Varnarleikurinn var góður á stuttum köflum en Björgvin Páll Gústavsson átti þó mjög góða spretti í markinu í seinni hálfleik og varði ófá dauðafærin.
Umfram allt annað var leikurinn hinn skemmtilegasti og mjög hraður. Austurríska liðið reyndi líka að keyra upp hraðann og fóru áhorfendur kátir heim af Ásvöllum og vonandi fá Ólafsvíkingar álíka skemmtun á morgun þegar liðin mætast í seinni leik sínum klukkan 16:00.
Tekið af visir.is