Nýlokið er þingi Alþjóða handknattleikssambandsins (IHF) sem haldið var í Sochi í Rússlandi nú um helgina. Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ og Davíð B. Gíslason varaformaður HSÍ sátu þingið fyrir hönd Handknattleikssambands Íslands.
Á þinginu voru tekin fyrir hefðbundin aðalfundastörf IHF, sem haldið er á tveggja ára fresti, sem og tillögur frá álfusamböndum s.s. Handknattleikssambands Evrópu (EHF) og tillögur einstakra sérsambanda líkt og HSÍ.
Í ljósi atburða í aðdraganda síðustu heimsmeistarakeppni (HM) og gagnrýni HSÍ á huglæga ákvarðanatöku IHF við val á þátttökuþjóðum í HM í Qatar, lagði HSÍ fram breytingartillögur á aðalreglum IHF í því skyni að tryggja að ákvarðanir IHF verði teknar af hlutlægum sjónarmiðum og ekki væri hægt að breyta reglum eftir að keppni væri hafin. Þessar breytingar voru samþykktar af þingfulltrúum IHF einróma.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, segir að hér sé um mikla breytingu á lögum IHF að ræða. „Með þessum breytingartillögum var verið að fylgja eftir sjónarmiðum HSÍ í þeim ágreiningi sem sambandið átti í við IHF fyrir HM í Qatar og með samþykkt þeirra teljum við að komið sé í veg fyrir geðþóttaákvarðanir við val á þátttökuþjóðum í heimsmeistarakeppni.“
HSÍ lagði jafnframt fram tillögu fyrir þingið um að ekki væri hægt að meina liði þátttöku frá HM vegna getamunar, eftir að það hafi tryggt sér þátttökurétt skv. reglum IHF. Þessi tillaga mætti andstöðu stjórnar IHF með þeim rökum að þeir vildu geta tryggt gæði leikja á HM og var þessi tillaga því felld eftir þónokkrar umræður.
Nánari upplýsingar gefur Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.