Íslenska landsliðið í handknattleik karla tapaði fyrir sænska landsliðinu, 30:24, í vináttleik á fjögurra þjóða móti í Kristiandstad í kvöld. Svíar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10, en náðu mest tíu marka forskoti upp úr miðjum síðari hálfleik.
Svíar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10. Íslenska landsliðið skoraði tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og náði aftur að minnka forskotið í tvö mörk í stöðunni 17:15. Eftir það gekk leikur íslenska liðsins á afturlöppunum, jafnt í vörn sem sókn, um talsvert skeið og Svíar náðu tíu marka forskot, 26:16. Íslenska liðið náði að laga aðeins stöðuna á lokakaflanum en þá voru Svíar líka búnir að kalla flesta bestu leikmenn sína af velli og setja minni spámenn í þeirra stað.
Varnarleikur íslenska liðsins hefur oft verið betri en að þessu sinni og markvarslan var svo að segja engin. Lengst af sóknarleikurinn mistækur.
Svíar voru með yfirhöndina frá upphafi en þó var leikurinn í járnum upp í 5:5. Þá skoraði sænska landsliðið þrjú mörk í röð, 8:5. Mest náði sænska liðið sex marka forskoti, 14:8. Mikael Appelgren, markvörður Svía, reyndist íslensku sóknarmönnunum erfiður í fyrri hálfleik.
Appelgren hélt áfram að gera leikmönnum íslenska landsliðsins gramt í geði í síðari hálfleik.
Mörk Svíþjóðar: Anton Halén 5, Niclas Ekberg 4, Jonas Källman 4, Magnus Persson 3, Markus Olsson 3, Fredrik Petersen 3, Viktor Östlund 3, Patrik Fahlgren 2, Niclas Barud 1, Lukas Karlsson 1, Kim Andersson 1.
Mörk Íslands: Ásgeir Örn Hallgrímsson 6, Arnór Þór Gunnarsson 4, Sigurbergur Sveinsson 4, Gunnar Steinn Jónsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Vignir Svavarsson 2, Guðmundur Árni Ólafsson 1, Róbert Gunnarsson 1, Rúnar Kárason 1.
Alexander Petersson, Arnór Atlason, Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson léku ekki með íslenska liðinu í kvöld. Þeir voru ekki á leikskýrslu. Auk þess þá kom Snorri Steinn Guðjónsson ekkert við sögu og Róbert Gunnarsson lítið.
Eftir viku mætast landslið Íslands og Svíþjóðar í fyrstu umferð C-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik í Doha í Katar.
Tekið af mbl.is.