Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði með níu marka mun, 28:19, fyrir landsliðinu Svartfellinga í fyrri viðureign liðanna um sæti á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Danmörku í desember. Staðan í hálfleik var jöfn, 12:12, en leikið var í Podgorica í Svartfjallalandi.
Svartfellingar byrjuðu betur og komumst í 3:1, en þá skoraði íslenska liðið fimm mörk í röð og náði þriggja marka forskoti, 6:3, eftir 11 mínútna leik og sex marka forskoti eftir 16 mínútur. 10:4. Varnarleikur Íslands var góður og sóknarleikurinn gekk greiðlega. En þar með voru sögulok. Leikmenn Svartfellinga, sem leika m.a. með besta félagsliði heims, Buducnost, tóku öll völd á leikvellinum. Þeir skelltu í lás í vörninni og skoruðu hvert markið á fætur öðru eftir hröð upphlaup. Forskot Íslands minnkaði stöðugt þannig að í hálfleik var jafnt, 12:12.
Svartfellingar skoruðu fjögur fyrstu mörk síðari hálfleiks og gáfu tóninn fyrir það sem koma skyldi. Ísland skoraði ekki sitt fyrsta mark í síðari hálfleik fyrr en eftir sex mínútur. Upp úr miðjum síðari hálfleik náði íslenska liðið að bíta frá sér um skeið þegar það minnkaði muninn í þrjú mörk, 19:16, og fékk tvö tækifæri til þess að minnka muninn í tvö mörk. Það tókst ekki og Svartfellingar með Katarina Bulatovic, Milena Knezevic og markvörðinn Alma Hasanic í aðalhlutverki stungu af á síðustu tíu mínútum leiksins. Níu marka skellur sem óþarflega mikið en því miður þá brást sóknarleikurinn íslenska liðinu illilega. Varnarleikurinn var lengst af í lagi og markvarslan var bærileg.
Liðin mætast á ný í Laugardalshöllinni á næsta sunnudag. Ljóst er að það verður við ramman reip að draga hjá íslenska liðinu.
Ramune Pekarskyte var markahæst í íslenska liðinu. Hún skoraði fimm mörk. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjögur mörk. Báðar voru með slaka skotnýtingu.
Tekið af mbl.is.