Slakur kafli í fyrri hálfleik reyndist íslenska liðinu dýrkeyptur í 25-21 tapi gegn Rúmeníu í undankeppni U-20 Heimsmeistaramótsins. Íslenska liðið lenti níu mörkum undir í fyrri hálfleik en náði að laga stöðuna í seinni hálfleik.
Sóknarleikur liðanna var lengi af stað og kom fyrsta íslenska markið ekki fyrr en eftir tæplega níu mínútur mínútur þegar íslenska liðið minnkaði muninn í 2-1. Þá tók við slæmur kafli hjá íslenska liðinu sem bætti ekki við öðru marki fyrr 8 mínútum seinna.
Rúmneska liðið einfaldlega setti í lás í fyrri hálfleik og virtust ætla að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. Mest fór munurinn upp í níu mörk en íslenska liðið náði að minnka muninn niður í sex mörk rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.
Íslenska liðið barðist hetjulega og náði að minnka muninn niður í þrjú mörk í seinni hálfleik en lengra komust þær ekki og vann rúmneska liðið að lokum nokkuð öruggan sigur. Íslenska liðið mætir Slóveníu á sunnudaginn í lokaleik riðilsins.
Ragnheiður Júlíusdóttir var atkvæðamest í liði íslenska liðsins með 6 mörk en í markinu varði Ágústa Magnúsdóttir 13 skot.
Tekið af visir.is.