Ísland og Ísrael áttust við í undankeppni Evrópumóts landsliða í handknattleik í Laugardalshöllinni í kvöld og vann Ísland stórsigur 36:19. Var þetta fyrsti leikur Íslands í keppninni að þessu sinni en liðið mætir Svartfjallalandi ytra á sunnudaginn.
Íslenska liðið hafði fimm marka forskot í hléi 14:9 þrátt fyrir að komast ekki almennilega í gang. Í síðari hálfleik var engin spurning um úrslit en þá stungu okkar menn af og Ísraelar skoruðu raunar ekki í 12 mínútur sitt hvoru megin við hálfleikinn.
Í fyrri hálfleik gerðu liðin talsvert af mistökum en síðari hálfleikurinn var öllu betri hjá íslenska liðinu. Auk þess fengu allir leikmenn liðsins að spreyta sig og jákvætt að sem flestir séu búnir að stimpla sig inn í keppnina.
Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson, stundum kallaður „Sonur vindsins“, var markahæstur með 9 mörk en var þó hvíldur síðustu 20 mínúturnar. Þá nýtti Sigurbergur Sveinsson tækifærið og skoraði 6 mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 10 skot í markinu.
Tekið af mbl.is.